Leikskólar opnaðir klukkan eitt

Leikskólakrakkar geta hitt skólafélaga sína eftir hádegi.
Leikskólakrakkar geta hitt skólafélaga sína eftir hádegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikskólar og frístundastarf grunnskólanema á höfuðborgarsvæðinu verða opnuð klukkan eitt eftir hádegi en stefnt hafði verið að því að hafa allt lokað í dag vegna óveðurs sem gengur yfir landið.

Það versta er afstaðið á suðvesturhorninu og af þeim sökum hefur verið tekin ákvörðun um að opna leikskóla og frístundastarf eins og áður segir.

Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna við mbl.is.

Í tilkynningu frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kemur fram að þetta eigi einungis við þá leikskóla þar sem ekki voru áður auglýstir skipulagsdagar. Starf frístundaheimila, íþróttastarf, tónlistarskólar og félagsmiðstöðvar opna á hefðbundnum tímum.

„Við minnum einnig á að í dag mánudag tekur við gul veðurviðvörun á höfuðborgarsvæðinu, eins og staðan er núna þá gildir hún frá kl 18:00 og gildir fram á þriðjudag og er því mikilvægt að foreldrar/ forráðamenn fylgist með veðri í fyrramálið áður en lagt er af stað í skólann,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert