Tugir milljóna en takmarkaður hópur

Friðrik Friðriksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýrrar Sviðslistamiðstöðvar Íslands. Hann sagði frá hlutverki þessarar stofnunar í Dagmálum, þeim væntingum sem hann hefur til starfsins auk þess sem hann gerði upp ár sín sem framkvæmdastjóri Tjarnarbíós.

Hin nýja Sviðslistamiðstöð Íslands, sem Friðrik snýr sér nú að, gegnir sambærilegu hlutverki og miðstöðvar annarra listgreina hér á landi. Hann nefnir sem dæmi Kvikmyndamiðstöð Íslands, Miðstöð íslenskrar myndlistar og Útón. Sviðslistirnar höfðu hingað til ekki átt sinn fulltrúa á alþjóðavettvangi en það verður að miklu leyti hlutverk miðstöðvarinnar.

„Hlutverk þessara miðstöðva er að stórum hluta að kynna sínar listgreinar erlendis þannig að stóra verkefnið verður að auka færni sviðlistafólks, hvar svo sem það starfar, í að kynna verkefni sín fyrir erlendum gestum og auka veg og virðingu íslenskra sviðslista á erlendri grundu,“ segir Friðrik.

„Það er stundum svolítið sorglegt að það sé verið að veita tugi milljóna inn í sviðlistaverk sem eiga sér takmarkaðan áhorfendahóp hérna innan lands en eiga sér miklu stærri hópa erlendis.“

Hann vonast til að kynning íslenskra sviðslista erlendis og ný tengsl við erlenda listamenn muni hafa góð áhrif á senuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert