Þrátt fyrir slæmt veður á Austurlandi hafa engin útköll borist viðbragðsaðilum enn sem komið er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi.
Þar segir að veður sé heldur að versna og færð á vegum að spillast.
„Íbúar eru því hvattir sem fyrr til að vera ekki á ferðinni, hvort heldur innanbæjar eða utan. Veður mun að líkindum ganga niður um hádegisbilið. Um leið og þess verður kostur mun þá farið í að moka vegi og hreinsa götur af krafti,“ segir í tilkynningunni og áréttað að hreinsunarstarf muni ganga hraðar fyrir sig ef engir bílar eru fastir á vegum.
Þá fylgir sögunni að staðan verði tekin að nýju um hádegi.