Varðskipið Freyja er væntanlegt á Vestfjarðamið um miðnætti þar sem það verður viðbragðsaðilum til taks. Óvissustig er í gildi þar vegna snjóflóðahættu og flestir vegir milli byggðarkjarna lokaðir.
Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, segir íbúa á Vestfjörðum nokkuð rólega enda fólk vonandi orðið vant þeim ráðstöfunum sem gripið var til.
„Við búum á Íslandi og það er land náttúruaflanna.“
Freyja siglir nú frá sinni heimahöfn á Siglufirði og verður hún staðsett fyrir utan Arnarfjörð og Dýrafjörð – eða miðsvæðis.
Aðspurður segir Hlynur að ekki sé um of mikinn viðbúnað að ræða og telur hann viðveru varðskipsins auka öryggistilfinningu meðal íbúa frekar en að ýta undir hræðslu. Hann segir það íþyngjandi að komast ekki milli staða og að aðgerðarleysi veiti falskt öryggi og því hefði það ekki verið ráðlegt.
Ef það kæmi til sjúkraflutninga væri gott að vera með varðskip nálægt.
„Við sem búum hér fyrir vestan erum búin að reyna ýmsa hluti og erum alltaf að reyna að lifa með náttúrunni og ekki að flýja hana þannig að um það snýst nú tilveran. Að yfirstíga hindranir.