Rýmingu á reit 9 á Ísafirði var aflétt nú síðdegis. Snjóflóð hafa fallið úr farvegum ofan við reitinn og ekki er talinn nægur snjór í fleiri flóð sem ógnað geta húsum, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Hættustigi var lýst yfir á Ísafirði fyrr í dag og var rýmingarreitur 9, sem er undir Steiniðjugilinu, rýmdur. Einnig er hættustig í gildi á Patreksfirði en óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi fyrir Vestfirði.
Að sögn ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands eru engin íbúðarhúsnæði á reit 9 en þar eru þó nokkur atvinnuhúsnæði.
Enn er í gildi rýming á sorpvinnslusvæðinu við Funa og þá er rýming í gildi bæði við Kirkjubæ, sem er íbúðarhúsnæði, og á Fremri-Ós í Bolungarvík. Þar býr þó enginn en dýr eru á svæðinu að sögn Veðurstofunnar.