Mikill sjór og sandur gengu upp á land í Vík í Mýrdal í óveðrinu í gær og hefur sandfok verið mikið, sérstaklega vestanmegin í bænum.
„Það er orðið mjög langt síðan við höfum séð svona sand fara inn að þorpinu,“ segir Einar Freyr Elínarson, oddviti í sveitarstjórn Mýrdalshrepps, spurður út í stöðu mála.
Ölduhæðin er talin hafa verið ein sú mesta sem hefur sést á svæðinu í áratugi.
„Ég fór með drenginn minn á leikskóla í morgun og þetta minnti helst á þegar verið var að taka upp Kötlu-þættina,“ bætir Einar Freyr við og segir sláandi að líta í kringum sig. Sjónvarpsþættirnir Katla gerast í Vík í Mýrdal og nutu mikilla vinsælda á Netflix.
Meðfylgjandi ljósmyndir frá fréttaritara mbl.is, Jónasi Erlendssyni, sýna glöggt hve umfangið er mikið.
Einar Freyr segir að sjórinn hafi gengið upp á land austanmegin við Vík þar sem engar flóðvarnir eru. Hann segir jákvætt að flóðvarnirnar virðast halda annars staðar og varna því að ekki hefur flætt inn á byggðina.
„Þetta var ótrúlegt aftakaveður þegar rauða viðvörunin var í gildi.“
Spurður segist hann ekki vita um tjón og segir samgöngur jafnframt vera opnar í bænum.
„Kannski það jákvæða er að nýlega skipulögðum við nýtt iðnaðarhverfi í Vík og færðum þar flóðvarnargarð og hann hefur haldið í þessu mikla vatnsveðri. Þær ráðstafanir sem við erum að gera virðast virka, en þetta kallar á hvað við getum gert betur til að verja okkur fyrir sandfoki,“ bætir hann við.