Tvö snjóflóð féllu í Dalabyggð

Verktakar hafa verið að störfum frá því klukkan 10 í …
Verktakar hafa verið að störfum frá því klukkan 10 í morgun við að ryðja vegi á svæðinu en mikill snjór hefur fallið þar. Ljósmynd/Arnar Freyr

Tvö snjóflóð féllu á veg á Skarðsströnd í Dalabyggð á Vesturlandi þar sem mikil snjókoma hefur verið.

Tveir kílómetrar voru milli flóðanna en hið stærra var um 100 metrar að lengd og hátt í tvo metra að þykkt, féll það á veginn nálægt bænum Nýp. Hið minna var um helmingi styttra að lengd en svipað að þykkt, að sögn Arnars Freys Þorbjarnarsonar, verktaka sem ruddi veginn. Hann ásamt starfsmanni vegagerðarinnar hafa verið að störfum frá því klukkan 10 í morgun.

Óvissustig er í gildi á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu og gul veðurviðvörun er í gildi á vesturhluta landsins.

Vegurinn ófær þegar snjóflóðin féllu

Að sögn Arnars var ekki að sjá að tjón hefði orðið vegna flóðanna en vegurinn var ófær þegar þau féllu. Ekki tókst þó að klára að ryðja veginn á Skarðsströnd þar sem að „kolvitlaust“ veður er skollið á. 

„Vegurinn varð fær í smá stund en svo hættum við“, segir Arnar. 

Hann segir fáa á ferli á svæðinu um þessar mundir og hafi hann ekki orðið var við neinn nema póstinn.

„Fólk fer ekki neitt, það hefur vit á því.“ 

„Það er háfjallshlíð á mörgum stöðum og bratt niður í sjó. Það er ekki gaman að villast þarna,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert