Þrjátíu snjómoksturstæki eru við vinnu sem stendur að ryðja vegi í Reykjavík. Nokkuð mikið hefur snjóað frá því í nótt og var færð í morgun léleg víða á höfuðborgarsvæðinu.
Halldór Ólafsson, rekstrarstjóri vetrarþjónustu vega hjá Reykjavíkurborg, segir í samtali við mbl.is að bílar frá þeim hafi verið í vinnu frá klukkan fjögur í nótt.
Hann segir að bílar hafi verið að festast í húsagötum en stofnvegir eigi að vera vel færir.
„Staðreyndin er sú að það fer að vera kominn svo mikill snjór víða í götur að það er orðið vandamál að ryðja þær. Það hrynur inn í aftur og þær þrengjast,“ segir hann. Erfitt sé fyrir ruðningsbíla að koma snjó frá sér.
Í forgangi eru húsagötur sem ekki tókst að ryðja í gær. Þeir sem fengu ruðning í gær fá líklega ekki fyrr en á morgun. Það taki vel mannaðar vaktir tvo til þrjá daga að fara allar stofnvegi og húsagötur.