Varðskipið Freyja til aðstoðar á Vestfjörðum

Varðskipið Freyja verður viðbragðsaðilum á Vestfjörðum til halds og trausts.
Varðskipið Freyja verður viðbragðsaðilum á Vestfjörðum til halds og trausts. Ljósmynd/Isafjordur.is

Varðskipið Freyja er á leiðinni til Vestfjarða þar sem það verður viðbragðsaðilum til halds og trausts vegna rofsins sem hefur orðið á samgöngum í óveðrinu sem þar hefur gengið yfir.

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, segir þetta gert í öryggisskyni. Skipið kemur í kvöld og verður statt miðsvæðis til að það geti farið annað hvort á sunnanverða- eða norðanverða Vestfirði með stuttum fyrirvara ef þörf krefur. 

Varðskipið Freyja.
Varðskipið Freyja. mbl.is/Árni Sæberg

Óhagstæð veðurspá 

Vegurinn um Súðavíkurhlíð, sem tengir saman Ísafjörð og Súðavík, er lokaður og sömuleiðis Flateyrarvegur. Hlynur segir óvíst hvenær vegirnir verða opnaðir aftur. Veðurspáin er ekki hagstæð og verður athugað með snjómokstur í fyrramálið. Töluverður snjór er á norðanverðum Vestfjörðum en einnig á sunnanverðum Vestfjörðum, sem er heldur óvenjulegt, að sögn Hlyns. Vegna skafrennings og úrkomu er skyggni misgott.

Súðavíkurhlíð.
Súðavíkurhlíð. mbl.is/Sigurður Bogi

Átta íbúðarhús rýmd

Hættustig vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Ísafirði og í Patreksfirði. Átta íbúðarhús á Patreksfirði voru rýmd í morgun. Tíu íbúar sem ekki komust til skyldfólks dvelja á hóteli sem var opnað í bænum og er það notað sem fjöldahjálparstöð Rauða krossins.

Sitthvor sveitabærinn á Ísafirði og í Bolungarvík var einnig rýmdur, en ekki er stanslaus viðvera í þeim.

Hlynur Hafberg Snorrason yfirlögregluþjónn.
Hlynur Hafberg Snorrason yfirlögregluþjónn. mbl.is/Sigurður Bogi

Þrjú fyrirtæki rýmd 

Þrjú fyrirtæki voru sömuleiðis rýmd, eða sorpvinnslusvæðið við Funa í botni Skutulsfjarðar og húsnæði Hampiðjunnar og Terra sem eru fyrir ofan Skutulsfjarðarbraut. Um 20 manns starfa hjá fyrirtækjunum. Ákvörðunin um rýminguna var tekin í gærkvöldi og mætti fólkið því ekki til vinnu í morgun. Að sögn Hlyns eru þessi þrjú fyrirtæki rýmd nánast á hverjum vetri vegna snjóflóðahættu. 

Snjóflóðavarnir á Ísafirði.
Snjóflóðavarnir á Ísafirði. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert