Alda sem mældist úr Garðskagaduflinu í óveðrinu á suðurströnd landsins í fyrrinótt, sprengdi 40 metra skalann, samkvæmt frumgögnum hafnadeildar Vegagerðarinnar.
Vegna þess að aldan sprengdi skalann er ekki hægt að segja með vissu um að mælingin sé rétt.
Ef rétt reynist er þetta langhæsta mælda aldan við Íslandsstrendur og sennilega með þeim hærri sem hafa verið mældar í heiminum, að því er kemur fram í minnisblaði Vegagerðarinnar, en verið er að vinna úr frekari greiningu á ölduduflinu.
„Suðurströnd landsins er eitt útsettasta strandsvæði jarðarinnar og má því búast við að hér komi með þeim hærri öldur sem fyrirfinnast,“ segir í minnisblaðinu.
Ölduspá gerði ráð fyrir að óveðrið væri stór atburður sem gæti leitt til þess að mjög háar öldur næðu landgrunni. Líkur voru á því að ölduhæð gæti náð sömu hæðum og voru mældar þann 9. janúar 1990 þegar Garðskagaduflið mældi 25 metra háa staka öldu, sem er sú hæsta sem mælst hefur við strendur Íslands, miðað við staðfesta mælingu.
Kennialda er meðaltal af hæstu öldum yfir hvert mælitímabil sem varir í 30 mínútur. Hæsta kennialdan sem var mæld úr Garðskagaduflinu í fyrrinótt náði 19,8 metra hæð rétt eftir miðnætti en truflanir í mæligögnum skekkja gildið og líklega var kennialdan aðeins lægri. Alls mældust um 10 stakar öldur yfir 25 metra hæð og fjórar öldur yfir 30 metrum.