Snjóflóð féll nýlega í Álftafirði á Vestfjörðum. Þetta kom í ljós við eftirlit á vegum en snjóflóðið náði niður á veg.
Súðavík stendur við Álftafjörð en snjóflóðið féll hinum megin í firðinum, það er sunnan megin, að sögn vakthafandi sérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Hættustig almannavarna er í gildi á Patreksfirði vegna snjóflóðahættu og óvissustig gildir annars staðar á Vestfjörðum.
Lítil úrkoma hefur mælst í nótt á Vestfjörðum og hægt og rólega hefur dregið úr vindi. Beðið er eftir birtingu til að endurmeta stöðuna fyrir vestan.
Varðskipið Freyja er komið vestur, er statt sem stendur í Arnarfirði og er til taks.