Heill hellingur af vörum er lentur í Bónus á Ísafirði að sögn Kristínar Þóru Henrysdóttur sem þar starfar. Ekki var hægt að keyra með vörur í bæinn síðustu daga og því minna til en vanalega og vantaði ákveðna hluti.
Vörurnar komu til Ísafjarðar nú síðdegis og að sögn Kristínar biðu Ísfirðingar í röð eftir vörunum.
Kristín segir frystivörur hafa farið hratt um helgina meðan fólk var að undirbúa sig undir veðrið og svo hafa eitt og annað líka klárast.
Hillurnar voru þó ekki alveg tómar en að að sögn Kristínar hefði staðan í kjötkælinum kannski veri álitin ansi sorgleg á venjulegum tímum.
„Eins og veðrið er búið að vera að þá kemur þetta engum á óvart. Það vita allir hérna að það var ófært og það var ekki hægt að fá vörur. Þetta er ekkert stórmál hjá okkur sem erum vön að lifa við þetta,“ segir Kristín og bætir við:
„Á móti kemur er færðin náttúrulega búin að vera þannig að það eru ekkert margir sem hafa komist út í búð.“
Þá hafi töluvert verið að gera síðustu helgi enda fólk að gera sig klárt fyrir að vera heima hjá sér lengi. „Í síðustu viku var náttúrulega opnað yfir á Patreksfjörð og Tálknafjörð og við finnum alveg fyrir því þegar það er búið að vera lokað þar á milli lengi að þá kemur fólk þaðan og þau eru ekki að kaupa inn fyrir vikuna, þau eru að kaupa inn fyrir mánuðinn,“ segir Kristín.
Kristín segir þetta aðeins öðruvísi en í Reykjavík. „Maður finnur það alveg, við höfum verið með verslunarstjóra sem hafa ekki verið aldir upp við þetta og eru ekkert vanir því að fylgjast með veðrinu þegar þeir eru að panta,“ segir Kristín og bætir við að þegar pantað sé inn þurfi mögulega að athuga hvort búið sé að moka heiði sem sé kannski 200 kílómetra í burtu.
„Við sem að búum hér og höfum búið hér erum vön því að þetta sé svona,“ segir Kristín að lokum.