Byggja 170 íbúðir úr umhverfisvænni steypu

Þorsteinn Víglundsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Viggó Einar Hilmarsson við …
Þorsteinn Víglundsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Viggó Einar Hilmarsson við undirritun samstarfssamnings BM Vallá og MótX í gær. Ljósmynd/Aðsend

Byggingarfélagið MótX og BM Vallá undirrituðu í gær samstarfssamning að byggingu íbúða við Hamranes í Hafnarfirði. Um er að ræða 5 fjölbýlishús með alls 170 íbúðum. Húsin verða Svansvottuð og byggð úr umhverfisvænustu steinsteypu sem notuð hefur hingað til í húsbyggingum á Íslandi. Þetta mun vera stærsti samningur um umhverfisvæna steypu sem gerður hefur verið hér á landi, að fram kemur í tilkynningu.

„Græn iðnbylting er hafin og virk þátttaka atvinnulífsins er forsenda þess að breytingar sem snúa að iðnaði, nýsköpun, tækniþróun, grænum lausnum og orkuskiptum takist vel. Það er ánægjulegt að sjá það frumkvæði sem MótX og BM Vallá sýna með þessum samningi sem nú er undirritaður og er liður í því að  draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaði. Við vitum hvert við ætlum að fara, nú þarf að framkvæma og þetta verkefni er mikilvæg varða á leiðinni að sjálfbærara samfélagi,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í tilkynningunni.

Um tímamótaverkefni að ræða

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, sem er eigandi BM Vallá, segir um tímamótaverkefni að ræða þar sem frá fyrstu stigum hönnunar er öll áhersla á að lágmarka kolefnisspor steinsteypunnar.

„Fullyrða má að það sé í fyrsta skipti sem það er gert í verkefni af þessari stærð hér á landi. Við áætlum að kolefnisfótspor steinsteypunnar verði 30-40% lægra en meðaltal markaðarins í dag. Ef okkur tækist að afreka slíkt á öllum byggingamarkaðinum myndi það samsvarar því að minnka kolefnisspor um 30 þúsund tonn. Það samsvarar því að taka um 12 þúsund bensínbíla úr umferð á ári hverju.“

Fyrstu íbúðirnar afhentar árið 2024 

Viggó Einar Hilmarsson, stjórnarformaður MótX og annar eiganda fyrirtækisins, segir fyrirtækið komið mjög langt í þróun á umhverfisvænni steypu og gangi í raun lengra í þessum efnum en Svansvottunarviðmið segi til um.

„Við erum með þessu að leggja okkar af mörkum til umhverfisins og hafa jákvæð áhrif inn í framtíðina. Þetta er líka hvatning til atvinnulífsins og fyrirtækja að minnka kolefnisspor með samvinnu og samstarfi sín á milli.“

Gert er ráð fyrir fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar árið 2024 og þær síðustu fyrir árslok 2025. Viggó segir að framkvæmdir við húsin hefjist á næstu vikum. Búið sé að klára jarðvegsframkvæmdir og næst verði farið í að steypa sökkla. Síðan fari allt á fullt við að reisa sjálf húsin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert