Búast má við erfiðri færð í fyrramálið

Björgunarsveitir aðstoða við að losa bíla í ófærðinni.
Björgunarsveitir aðstoða við að losa bíla í ófærðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þótt veðrið sé að mestu gengið niður og nokkuð greiðfært er orðið á götum borgarinnar verður stundin milli stríða stutt. Þetta segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Fólk aki varlega heim úr vinnu og skóla í dag

Þegar líður á daginn mun ganga í hvassa suðaustanátt á höfuðborgarsvæðinu og von er á einhverri úrkomu, að sögn Haralds. Spurður segir hann þó ekki útlit fyrir að þeir sem hyggist aka heim úr vinnu eða skóla á milli kl. 16 og 18 í dag þurfi að gera það í blindni.

„Þótt það verði ekki alveg úrkomulaust verður lítil úrkoma frameftir kvöldi svo það er aðallega vindurinn sem verður dálítið til trafala. Það getur líka verið einhver skafrenningur í þessu þó hitinn sé kominn aðeins yfir frostmarkið. Það er bara spurning með færðina hvernig gengur að ryðja og hreinsa götur.“

Útlit er þó fyrir að það bæti eitthvað í úrkomuna í kvöld og að það verði slydda eða snjókoma framundir morgun, segir Haraldur inntur eftir því. Það verði þó löngu eftir að fólk er komið heim úr vinnu eða skóla.

Ófáir sátu fastir í umferðinni í dag.
Ófáir sátu fastir í umferðinni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hvorki skemmti­legt fyr­ir gang­andi né ak­andi í fyrra­málið

Vegna úrkomunnar megi þó búast við því að færð á vegum verði erfið í fyrramálið. Það fari þó allt eftir því hvernig gengur að hreinsa göturnar, að sögn Haralds.

„Það verður sjálfsagt hvorki skemmtilegt fyrir gangandi né akandi í fyrramálið en vonandi næst að hreinsa þetta mikið til. Svo skánar veðrið mikið strax í fyrramálið og í raun útlit fyrir þokkalegasta veður á morgun.“

Spurður segir Haraldur það ekki líklegt að niðurföll stíflist vegna breytilegs hitastigs og úrkomunnar næsta sólarhringinn og því þurfi menn ekki að hafa áhyggjur af mögulegu vatnstjóni.

„Þetta er svo væg hláka að það er frekar ólíklegt en ef menn hafa tök á því þá er gott að hreinsa frá niðurföllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert