Kjalarnesvegur lokaður til miðnættis

Kjalarnesvegur hefur verið lokaður vegna ófærðar og vonskuveðurs síðan rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Guðni Ársæll Indriðason, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, segir lokunina vera orðna ansi langa og að hann sé ekki bjartsýnn á að vegurinn verði opnaður í dag.

Eflaust fáir sem komust til vinnu í morgun

„Það var einhver smá gluggi þarna eftir hádegi þar sem það hefði verið hægt að opna veginn ef menn hefðu haft tækin og tólin í það en maður veit ekki hvernig staðan á því er. Það er ekkert orðið til af tækjum og tólum,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.

Sjálfur segist hann ekki hafa séð neina ástæðu til þess að fara að heiman í morgun. Það hafi þó eflaust verið margir sem hafi ætlað sér að mæta til vinnu en komust ekki leiðar sinnar vegna lokunarinnar.

„Það er mikið af fólki sem býr væntanlega bæði á Kjalarnesinu og í Mosfellsbæ og vinnur t.d. í alifuglabúunum á Kjalarnesi. Það hefur ábyggilega verið erfitt fyrir þá að mæta í morgun. Veginum var lokað rétt fyrir sjö svo þeir hafa verið fáir sem sluppu í gegn fyrir það. Hinir eru eflaust veðurtepptir í bænum núna.“

Björgunarsveitarbíll þveraði veginn til að loka honum.
Björgunarsveitarbíll þveraði veginn til að loka honum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjalarnesvegurinn sæti sjaldan forgangi í mokstri

Spurður segist Guðni ekki vita til þess að það hafi verið reynt að moka veginn í dag vegna veðursins og því sé hann enn lokaður. Þá sé hann ekki vongóður um að vegurinn verði opnaður í dag.

„Ég er ekki að sjá það miðað við veðurspánna. Það gæti verið að veðrið gangi ekki niður fyrr en eftir miðnætti og þá er ýmislegt annað sem gengur fyrir en Kjalarnesið. Það hefur oft verið þannig í gegnum tíðina.

Opnunin á Kjalarnesveginum er samt ekki bara fyrir okkur Kjalnesinga. Þetta er líka fyrir þá sem búa á Akranesi og á Borgarnesi sem stunda vinnu eða skóla í bænum og það hefur verið gríðarleg umferð þangað kvölds og morgna.“

Fylgdarakstri hætt vegna versnandi veðurs 

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var fylgdarakstur frá Esjumelum að Hvalfjarðargöngum og til baka áætlaður á meðan veður leyfði í dag. Nú hafi veðrið þó versnað til muna og fylgdarakstri því hætt. Þá verði líklega ekki hægt að opna Kjalarnesveginn aftur fyrr en í fyrsta lagi um eða eftir miðnætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert