Minniháttar röskun á flugi vegna veðurs

Flugvélar Icelandair
Flugvélar Icelandair mbl/ Júlíus Sigurjónsson

Þrátt fyrir vonskuveður og ófærð á vegum varð minniháttar röskun á flugi íslensku flugfélaganna í dag. Þetta staðfesta Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, og Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi Play, í samtali við mbl.is.

Engum flugferðum aflýst en nokkrum flýtt

Engum flugum Icelandair hefur verið aflýst í dag en þónokkrum þeirra hefur verið flýtt vegna veðursins, að sögn Ásdísar.

„Við flýttum seinnipartstraffíkinni um einn til einn og hálfan tíma til að vera á undan veðrinu. Það voru s.s. fjögur flug til Bandaríkjanna og eitt flug til London.

Í innanlandsfluginu flýttum við kvöldflugunum. Það voru tvö flug til Egilsstaða og Akureyrar sem áttu að fara um sexleytið í kvöld en þau voru farin um hádegisbil eða um hálf eitt í dag.“

Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvort einhver röskun verði á flugferðum Icelandair vegna veðurs í fyrramálið, segir Ásdís innt eftir því.

„Það er allavega ekki búið að taka neinar ákvarðanir hvað það varðar ennþá.“

Allar flugferðir Play á morgun eru enn á áætlun.
Allar flugferðir Play á morgun eru enn á áætlun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allar flugferðir Play á morgun enn á áætlun

Þá var heldur ekki neinum flugferðum Play aflýst vegna veðursins, hvorki í gær né í dag, að sögn Nadine Guðrúnar.

„Það var ein flugferð til Parísar sem fór aðeins á undan áætlun í dag og farþegar voru bara látnir vita af því. Hún átti að fara um hálf fjögur en var farin um þrjú í staðinn.

Þannig það var bara farið aðeins á undan áætlun til að ná á undan veðrinu og það var ekkert vesen með önnur flug.“

Spurð segir Nadine einu flugferðir Play á morgun vera til Tenerife og að sem stendur séu þær allar enn á áætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert