Of löng lokun

Frá Hellisheiði.
Frá Hellisheiði. mbl.is/Óttar

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar sendi frá sér áskorun til Vegagerðarinnar á föstudag, í kjölfar þess að vegurinn um Hellisheiði var lokaður í á þriðja sólarhring í síðustu viku. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, segir í samtali við Morgunblaðið að hún hafi ekki trú á öðru en að Vegagerðin taki við áskoruninni og skoði málið ásamt verktakanum sem sér um veginn.

„Við erum ánægð með að Vegagerðin skuli loka veginum þegar hann er ófær. En það sem var svo sérstakt þarna var að veðrið var löngu gengið niður og snjórinn ekki með þeim hætti að það hafi ekki verið hægt að opna fyrr,“ segir Aldís.

Vegurinn um Hellisheiði var lokaður frá mánudegi og ekki opnaður fyrr en síðdegis á miðvikudag. Djúp lægð fór yfir landið aðfaranótt mánudags og var veður slæmt þann dag.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir skýra verkferla gilda um þjónustu á veginum um Hellisheiði. „Verklagið gengur út á það, að þegar ekki er hægt að þjónusta veginn með þeim hætti að hann sé öruggur miðað við þá umferð sem er á honum, þá er honum lokað. Svo er hann opnaður eins fljótt og hægt er aftur,“ segir Bergþóra. Hún segir veginn á hæsta þjónustustigi og rík ástæða sé til að loka svo fjölförnum vegi ef eitthvað er ekki í lagi.

Nýr verktaki tók við þjónustunni á Hellisheiði í vetur. Spurð hvort um byrjunarörðugleika hjá nýja verktakanum sé að ræða segir Bergþóra að svo sé ekki. „Auðvitað er gert ráð fyrir ákveðnum aðlögunartíma, en sá aðlögunartími er löngu liðinn. Svo það er ekki málið,“ segir Bergþóra. Hún segir Vegagerðina hafa móttekið áskorun Hveragerðisbæjar og farið verði ofan í saumana á málinu í vikunni. Ef hægt verður að bæta þjónustuna innan þess ramma sem Vegagerðin hefur verði það gert.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert