„Formaður hefur ekki neitt einvald“

Ólöf segist hafa gætt sín á því í baráttunni að …
Ólöf segist hafa gætt sín á því í baráttunni að vera ekki með nein gífuryrði. Samsett mynd/mbl.is

Ólöf Helga Adolfsdóttir, núverandi varaformaður Eflingar, er vonsvikin yfir því að hafa beðið lægri hlut í formannskjöri innan Eflingar, en í ljós kom í gærkvöldi að Sólveig Anna Jónsdóttir hefði aftur verið kjörin formaður félagsins á ný. Ólöf heldur þó ótrauð áfram sinni baráttu fyrir félagsmenn Eflingar, enda á hún að minnsta kosti ár eftir af sinni stjórnarsetu.

„Ég er pínu vonsvikin því við lögðum upp með að sigra kosningarnar, en það er vilji félagsmanna sem ræður þarna. En við höldum áfram vinnunni og förum saman í komandi kjarabaráttu,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

A-listi uppstillinganefndar, sem Ólöf leiddi, hlaut 36,77 prósent atkvæða, en Baráttulistinn með Sólveigu í fararbroddi, hlaut 52,49 prósent atkvæða. C-listi Guðmundar Baldurssonar hlaut 8,49 prósent atkvæða.

Fer aftur í ritarastöðuna

Ólöf tók við sem varaformaður Eflingar í nóvember á síðasta ári, eftir að Sólveig sagði af sér formennsku. Hún fer nú aftur í ritarastöðuna sem hún gegndi áður.

Stjórn félagsins skipa 15 stjórnarmenn að meðtöldum formanni. Kosið er um sjö stjórnarmenn ár hvert og er kjörtímabil þeirra tvö ár. Sjö stjórnarmenn ganga því úr stjórninni á hverju ári og sjö nýir koma inn. Formaður er hins vegar kosinn á tveggja ára fresti.

Sólveig tekur aftur við sem formaður eftir aðalfund sem fer venjulega fram í byrjun apríl, en það er trúnaðarráðs að taka ákvörðun um dagsetningu. Með Sólveigu koma inn sjö nýir stjórnarmenn af Baráttulistanum.

Sólveig hafi farið yfir strikið

Ólöf og Sólveig koma því til með að vinna aftur saman í stjórn Eflingar, en óhætt er að segja að andað hafi köldu á milli þeirra á tímabili í kosningabaráttunni.

Leggst það vel í þig að vinna aftur með Sólveigu?

„Já, það leggst bara vel í mig að halda áfram baráttunni fyrir félagsmenn, óháð því hver er í formannssætinu. Þannig lít ég á það. Mér ber skylda til þess að halda áfram.“

Ólöf segist hafa gætt sín á því í kosningabaráttunni að vera með ekki með nein gífuryrði. „Ég kannski spurði nokkurra spurninga en að öðru leyti tel ég mig ekki hafa farið yfir neitt strik, borið út óhróður eða lygar.“

Finnst þér Sólveig hafa gert það?

„Já, mér finnst hún hafa farið yfir strikið þegar kemur að starfsfólki skrifstofunnar. Mér þykir mjög miður að hún hafi stillt þessu þannig upp að þetta væri starfsfólk skrifstofunnar á móti verkalýðnum. Sem það svo sannarlega er ekki, enda er skrifstofufólkið launafólk líka og mikið til félagsmenn í Eflingu. Þannig mér finnst það mjög ósanngjarnt og er mjög óánægð með það.“

Stjórnin beri sameiginlega ábyrgð

Aðspurð hvort hún búist við því að verði einhverjar uppsagnir á skrifstofunni þegar Sólveig taki aftur við formennsku eftir aðalfund, segir Ólöf það ekki formanns að taka slíkar ákvarðanir án samráðs við stjórnina.

„Formaður hefur ekki neitt einvald. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á hagsmunum félagsins. Hún mun ekki geta farið í neitt svona án þess að vera með stuðning frá stjórninni.“

Sólveig var spurð að því í viðtali á Vísir.is í dag hvernig hún ætlaði að nálgast starfsfólk þegar hún kæmi aftur á skrifstofuna og svaraði hún:

„Já, þetta er bara áhugaverð spurning. Á þessum tímapunkti tel ég náttúrlega kannski nær að spyrja hvernig starfsfólk hafi hugsað sér að nálgast nýkjörinn formann. Sem kemur þarna með lýðræðislegt umboð félagsfólks til að stýra félaginu.“ 

Vonar að fólk sjái sér fært að starfa áfram 

Óformlegur starfsmannafundur var haldinn á skrifstofu Eflingar í morgun og sagði Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is í morgun að stemningin hefði verið þung. Fólk sinni þó áfram starfi sínu af heilindum fyrir félagsmenn Eflingar.

Ólöf var viðstödd fundinn og tekur undir orð framkvæmdastjóra að stemningin hafi verið þung. „Við vitum öll hve mikilvægu starfi þau sinna og vonandi sjá þau sér öll fært að vinna hérna áfram með okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert