Hætta að bólusetja í höllinni um mánaðamót

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfram verður bólusett í Laugardalshöll fram að mánaðamótum, eftir það verður hægt að leita á heilsugæslur fyrir bólusetningar gegn Covid-19. Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hún segir ástæðuna vera að mæting í bólusetningu hafi minnkað töluvert síðustu vikur og mæti nú daglega aðeins í kringum 100 til 150 einstaklingar.

„Við erum svona að blása í það að næsta vikan verði síðasta vikan, við ætlum að vera út febrúar í höllinni og erum að reikna með að færa þetta svo yfir. Það er orðin frekar lítil þátttaka, svona í kringum 100 til 150 manns sem koma þar á dag,“ segir Ragnheiður.

„Nú hvetjum við alla til að drífa sig í örvunarskammtinn og við förum að loka.“

Hún segir að áfram verði þó hægt að fara í bólusetningar gegn Covid-19 á heilsugæslum, skipulag á því verði þó alfarið í höndum heilsugæslnanna.

Reikna með þrjú þúsund sýnum á dag

Um þrjú þúsund PCR-sýni voru tekin á Suðurlandsbraut í dag og segir Ragnheiður það vera svipað og hafi verið undanfarna daga. Því hafi heldur færri verið að mæta í sýnatöku en áður.

„Í janúar vorum við alveg með um fimm þúsund á dag, þannig að þetta er svona heldur minna,“ segir Ragnheiður og bætir við að álag á starfsfólki hafi því minnkað.

Eftir því sem hún kemst næst er enn töluverð bið eftir niðurstöðum úr sýnatökunum en Landspítalinn, sem sér um að greina sýnin, fær sýni úr fleiri áttum.

„Svo vitum við ekki alveg hvernig þetta verður núna á næstunni. Við erum að búa okkur undir það að það verði um þrjú þúsund sýni tekin daglega núna, svo sjáum við bara hvernig fram vindur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert