Íbúðaverð hækkar hratt

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,7% milli desember og janúar, samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands, og er þetta annar mánuðurinn í röð sem hækkunin á íbúðaverði mælist mikil.

„Í desember hækkaði íbúðaverð um 1,8% sem kom nokkuð á óvart þar sem verðþróunin mánuðina á undan hafði gefið tilefni til að ætla að markaðurinn væri farinn að róast. Svo virðist nú sem einhver bið verði á því,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Fjölbýli hækkaði um 1,8% milli mánaða og sérbýli um 1,1%. 12 mánaða hækkun fjölbýlis mælist nú 19,6% og sérbýlis 22,5%, en vegin hækkun íbúðarhúsnæðis alls mælist 20,3%. 12 mánaða hækkun sérbýlis hefur ekki verið meiri síðan í mars 2006 þegar hækkunin mældist 26,3%.

Fram kemur að síðast þegar hækkanir á húsnæðismarkaði voru áþekkar og nú hafi spennan verið meiri á markaði fyrir fjölbýli sem hækkaði um allt að 24,4% þegar mest lét í maí 2017. Núna virðist spennan vera meiri á markaði fyrir sérbýli sem hækkar meira en fjölbýli horft til 12 mánaða þróunar.

Almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 0,16% milli mánaða í janúar og hækkaði raunverð íbúða, þ.e. verð á íbúðum umfram annað almennt verðlag, um 1,5% milli mánaða.

Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem hækkunin mælist 1,5% og er um að ræða talsvert meiri hækkun en sást mánuðina á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert