„Maður bara vonar það besta“

Vesturlönd telja mikla hættu á innrás Rússa í Úkraínu.
Vesturlönd telja mikla hættu á innrás Rússa í Úkraínu. AFP

Margeir Pétursson, stofnandi MP-banka og einn eigenda Bank Lviv, sem búsettur er í Lviv í Úkraínu, segir lífið ganga sinn vanagang í borginni þrátt fyrir að stjórnvöld á Vesturlöndum telji innrás Rússa í landið yfirvofandi.

Ekkert bendi til þess að fólk sé almennt óttaslegið eða sé að undirbúa sig fyrir yfirvofandi hættu. Ekki hafi borið á því að fólk sé að hamstra mat í verslunum eða bensín á bensínstöðvum.

Flestir í kringum hann telja að stjórnvöld á Vesturlöndum séu að ofmeta möguleikann hugsanlegri innrás Rússa í Úkraínu. Hann er sjálfur þeirrar skoðunar, en viðurkennir að það sé kannski óskhyggja.

Margeir Pétursson er búsettur í Lviv í Úkraínu.
Margeir Pétursson er búsettur í Lviv í Úkraínu. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Meira fjallað um málið í breskum fjölmiðlum

Lviv telst til vestræna hluta Úkraínu og er staðsett í um 70 kílómetra fjarlægð frá Póllandi. Landamærin að Rússlandi eru því í töluverðri fjarlægð, en þar hefur á annað hundruð þúsund manna herlið Rússa safnast saman.

Rússnesk yfirvöld hafa gefið út að herlið hafi verið þar staðsett vegna heræfinga, sem sé nú lokið, og að til standi að kalla allt herlið til baka. Bandaríkjamenn virðast þó telja að Rúss­ar séu frekar að stig­magna viðbúnað sinn heldur en hitt og þeir séu að leita að átyllu til innrásar.

Aðspurður segir Margeir að fólk í kringum hann sé ekki upptekið af mögulegri innrás og ekki sé mikið fjallað um málið í úkraínskum fjölmiðlum.

„Nei, það er til dæmis miklu meiri uppfjöllun þetta í breskum fjölmiðlum heldur en nokkurn tíma hér.“

Óskemmtilegt að lesa fréttir

Hann segir fólk orðið mjög vant ástandinu, en átök hafa staðið yfir með hléum á svæðinu frá því Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.

Það kippi sér því kannski minna upp við fréttir af hugsanlegri innrás, en ella. Hann bendir þó að ekki hafi svo fjölmennt herlið safnast saman við landamærin áður.

Margeir segist þó ekki upplifa sig í neinni hættu.

„Nei ég geri það nú ekki en það er óskemmtilegt að lesa allar þessar fréttir. Maður bara vonar það besta,“ segir Margeir.

Flestir telja innrás ólíklega

Fólk í kringum hann sé þeirrar skoðunar að innrás Rússa sé ólíkleg.

„Flestir hérna, þar á meðal ég, hafa þá trú að það gerist eitthvað mjög lítið og fjari einhvern veginn út. Það er kannski óskhyggja, en þetta er skoðun flestra.“

Hann segist þó ekki vita hvernig staðan er nær landamærum Rússlands. Fólk upplifi sig eflaust ekki jafn öruggt þar og einhverjir hafa verið að koma frá Kænugarði til Lviv, sem talið er öruggara svæði. Eitthvað af sendiráðsstarfsfólki sem staðsett var í Kænugarði hefur til að mynda verið flutt til Lviv.

Margeir ætlar sér að vera áfram í Úkraínu þrátt fyrir óvissuástandið. Hann geti ekki stungið af frá sínu starfsfólki. „Maður verður að sýna samstöðu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert