Ekki hafa borist nýlegar tilkynningar um snjóflóð á landi. Þetta segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, snjóflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Appelsínugular snjóflóðaviðvaranir eru í gildi á Austfjörðum, Vestfjörðum og suðvesturhorninu.
Sigurdís biðlar til allra þeirra sem ætla að fjöll að kanna aðstæður vel og vera með réttan búnað. Aðspurð segir Sigurdís að byggðarlög séu ekki í hættu.
„Mesta hættan er að fólk sem er á snjósleðum og fjallaskíðum setji af stað snjóflóð,“ segir Sigurdís og bætir því við að um síðustu helgi hafi verið talsvert um snjóflóð á suðvesturhorninu af mannavöldum.
Veikt snjólag fannst í snjógryfju við Mikladal við Patreksfjörð í gær og er fólk á Vestfjörðum hvatt til þess að fara sérstaklega varlega.
„Fólk þarf að passa að vera ekki á stöðum þar sem geta myndast svona landslagsgildrur, þá getur snjór hrannast upp í botni dala og gilja og það getur verið alveg stórhættulegt.“
Veðrið verður ekki skemmtilegt um helgina að sögn Sigurdísar og má búast við hvassri austan átt með éljagangi.