Óboðlegt en ekki útilokað að fá smitaða til vinnu

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Skynsamlegra væri að umbuna starfsmönnum hjúkrunarheimila og skapa þannig hvata fyrir fólk að bæta við sig vinnu, frekar en kalla Covid-sýkta úr einangrun á vakt. Ekki er þó útilokað að grípa þurfi til þessarar ráðstöfunar en það yrði aldrei gert nema í brýnni neyð. Heilbrigðisstarfsfólk er langþreytt og upplifir lítið þakklæti fyrir vel unnin störf í faraldrinum. 

Þetta segir Þórdís Hulda Tómasdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs Eirar, spurð út í afstöðu hennar gagnvart mögulegum fyrirætlunum heilbrigðisráðherra um að heimila Covid-sýktum starfsmönnum að mæta til vinnu.

Heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili glíma nú við mikinn mönnunarvanda samhliða því sem kórónuveirusmitum fjölgar. Ríflega 300 starfsmenn Landspítala hafa verið frá vegna einangrunar síðustu daga.

Ekki eru þó allir á sama máli innan heilbrigðisgeirans um hvernig skuli bregðast við þessari stöðu. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í gær í samtali við mbl.is það brjóta í bága við siðareglur hjúkrunarfræðinga að fá þá til vinnu sem eru með virkt smit. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þetta þó framkvæmanlegt svo lengi sem reglum og leiðbeiningum sé fylgt. 

Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lokaúrræði

„Auðvitað er þetta alltaf lokaúrræðið, maður myndi aldrei nota slíka starfsmenn nema af því að neyðin væri orðin það mikil. En vonandi þarf þess ekki,“ sagði Þórdís Hulda í samtali við mbl.is.

Hún segir vitaskuld ekki ákjósanlegt að vera með fámennar vaktir og geti slík staða bitnað á þjónustunni sem er veitt. Hingað til hafi starfsfólki þó ávallt tekist að sinna grunnþörfum íbúa. Ef allt skyldi þó bregðast væri möguleiki að fá Covid-sýkta einkennalausa starfsmenn til vinnu. 

„Maður er líka hræddur um að komi ekki til aðgerða eigum við eftir að missa fjölda fólks í kulnun og örmögnun þegar þessu lýkur. Það er líka hættulegt fyrir okkur.“

Erfitt fyrir starfsfólk

Hún segir þennan valkost þó setja starfsfólk í erfiða stöðu sem kærir sig eflaust ekki um að mæta til vinnu með virkt smit og hætta þess að smita íbúa.

„Með slíkum aðgerðum yrði starfsfólki gert að vinna allan sinn vinnudag með veiruheldan maska og það er bara ekki boðlegt. Við ættum miklu frekar að einbeita okkur að því hvernig við getum hvatt þá sem eftir standa hreinlega til að vinna meira,“ bætir hún við.

Önnur staða á landsbyggðinni

Þórdís vekur þó athygli á að hjúkrunar- og dvalarheimili í þéttari byggðum séu vissulega í betri stöðu þegar kemur að starfsmannamálum samanborið við heimilin í dreifbýli þar sem eitt hópsmit gæti sett meirihluta starfsmanna í einangrun á einu bretti. 

„Við höfum alveg lánað starfsfólk milli heimila þegar staðan er slæm, við höfum látið það ganga. En hjúkrunarheimili úti á landi eiga ekki þá kosti.“

Í ljósi þess ættu minni hjúkrunarheimili á landsbyggðinni erfiðara með að útiloka þennan kost sem hér um ræðir. Þyrfti því að vanda orðræðuna varðandi þetta úrræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert