Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 dagana í febrúar er -2,1 til -2,5 gráðum undir meðallagi þessara daga á sl. 30 árum og -3,3 undir meðaltali síðasta áratugar. Þetta kemur fram í yfirliti sem Trausti Jónsson veðurfræðingur birti í gær á vefsíðu sinni, Hungurdiskum. Í Reykjavík er hitinn í næstneðsta sæti hvað varðar kulda, en metið þar er frá 2002. Á Akureyri er meðalhiti nú -4,3 stig, -3,4 stig neðan meðallags 1991 til 2020 og -4,4 stigum neðan meðatals sl. 10 ára.
Á Vestfjörðum, Austfjörðum, Suðausturlandi og Suðurlandi eru dagarnir nú í febrúar þeir köldustu á 21. öldinni hingað til, en næstkaldastir á öðrum spásvæðum. Kaldast að tiltölu hefur verið í Möðrudal, þar er hiti -5,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Minnst er hitavikið miðað við síðustu tíu ár á Reykjanesbraut, -2,6 stig.
Tvö lágmarksmet hafa verið sett að undanförnu, hinn 13. og 14. í Möðrudal á Fjöllum. Þau slá út eldri met sem líka voru sett á þeim stað, annað 1988 og hitt 1888. Frost í Möðrudal fór niður í -26,8 stig 14. febrúar sl.