Sakfelldir fyrir að lenda á friðlandi

Ekki mátti lenda á friðlandi á Hornströndum í útsýnisferðum. Landsréttur …
Ekki mátti lenda á friðlandi á Hornströndum í útsýnisferðum. Landsréttur sneri héraðsdómi. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

Landsréttur sneri í dag dómi héraðsdóms og komst að því að bannregla gegn lendingum þyrlna á friðlandinu á Hornströndum hafi átt sér lagastoð og hinir ákærðu ættu að vera dæmdir til refsingar fyrir brot gegn henni. 

Ákærðu skipulögðu, stóðu fyrir og seldu útsýnisflug með tveimur þyrlum um friðlandið og flugu þeim og lentu þar án leyfis Umhverfisstofnunar. Segir í dómi Landsréttar að í 9. gr. auglýsingar um staðfestingu á stjórnunar- og verndaráætlun friðlandsins á Hornströndum sé kveðið á um bannið með afdráttarlausum hætti.

Sýknaðir í héraðsdómi

Var fyrirtækinu BlueWest gert að greiða 150.000 krónur í sekt og öðrum ákærðum, þremur talsins, gert að greiða 75.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ella sæti þeir fangelsi í sex daga. Var þeim og gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, 1.934.400 krónur.

Í dómi Héraðsdóms Vesturlands var hins vegar komist að því að reglan hafi ekki átt sér lagastoð og með vísan til 69. gr. stjórnarskrárinnar, um refsingu án lagaheimildar.

Landsréttur féllst hins vegar á að reglan, sem sett væri með stoð í 81. gr. laga um náttúruvernd væri gild refsiheimild samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert