Annasamur dagur hjá björgunarsveitum

Frá störfum björgunarsveitanna í dag.
Frá störfum björgunarsveitanna í dag. Ljósmynd/Aðsend

Mikið hefur mætt á björgunarsveitum í dag vegna veðurs og þungrar færðar á vegum sunnanlands. Flest verkefnanna hafa verið að losa fasta bíla og leysa úr umferðaröngþveiti, að því er Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Landsbjörgu, greinir frá í samtali við mbl.is.

Hafa sinnt um 90 útköllum það sem af er degi

Það sem af er degi hafi björgunarsveitirnar sinnt um 20-30 útköllum á höfuðborgarsvæðinu og öðrum eins fjölda verkefna á bæði Suðurnesjunum og á Suðurlandi, að sögn Karenar.

Þá hafi björgunarsveitir verið kallaðar út um þrjúleytið í dag vegna sextíu bíla sem sátu fastir á vegi um Sólheimasand nærri Jökulsá 

„Þeir voru væntanlega ekki allir fastir í snjó en sumir þeirra hafa ekki komist leiðar sinnar vegna þess að aðrir bílar voru fastir.“

Um tuttugu björgunarsveitarmenn sinntu svo útkalli vegna drengs sem hafði grafist í snjóflóði í Hamrinum í Hveragerði rétt fyrir klukkan tvö í dag.

Þá sinntu björgunarsveitarmenn sömuleiðis eftirliti með þeim fjölda vega sem var lokað í dag vegna ófærðar. Upplýsingar um færð á vegum má finna á vef Vegagerðarinnar.

Fjöldi vega hefur verið lokað vegna ófærðar í dag.
Fjöldi vega hefur verið lokað vegna ófærðar í dag. Kort/Vegagerðin

Stundin milli stríða verður stutt 

Spurð segir Karen álagið á björgunarsveitirnar í dag vera eins og við mætti búast miðað við aðstæður. Þá sé það alveg ótrúlegt hve lítil áhrif kórónuveirufaraldurinn hefur haft á störf björgunarsveitanna hingað til, að sögn hennar.

„Ég man ekki eftir því að við höfum fundið fyrir því að vera fáliðuð vegna Covid.“

Þótt veðrið eigi að ganga niður annað kvöld, samkvæmt Veðurstofu Íslands, verður stundin milli stríða stutt, því útlit er fyrir annan skell strax á mánudag.

Innt eftir því segir Karen björgunarsveitirnar ekki ennþá farnar að setja sig í sérstakar stellingar fyrir það. Vel sé þó fylgst með gangi mála og sveitirnar yfirleitt vel undirbúnar þegar stefnir í óefni.

„Við mönnum reyndar aðgerðarstjórn fyrirfram ef talin er þörf á því. Ég held að fólk ætli bara að klára veðrið núna og fara svo í að ræða mánudaginn á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert