Rauð viðvörun mögulega í kortunum

Útlit er fyrir leiðindaveður á landinu öllu á mánudag og …
Útlit er fyrir leiðindaveður á landinu öllu á mánudag og þriðjudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Leiðindaveður hefur verið í dag og eru ýmist gular eða appelsínugular viðvaranir í gildi á landinu öllu þar til annað kvöld. Stundin milli stríða verður þó stutt þar sem ofsaveður er í vændum á mánudag eftir helgi.

Þetta segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Dregur smám saman úr vindi á morgun

„Það er ennþá að bæta í vindinn. Ætli veðrið verði ekki búið að ná hámarki í nótt á sunnan- og vestanverðu landinu. Versta veðrið er þarna allra syðst eins og undir Eyjafjöllum, í Öræfum og í Mýrdal.

Þetta verður leiðindastormur eða rok og eiginlega bara hríðarveður þar í nótt og eitthvað frameftir degi á morgun. Á vesturhluta landsins er þetta meira hvassviðrisstormur og skafrenningur en með lítilli úrkomu.“

Draga á svo smám saman úr vindinum á morgun og veðrið að vera orðið nokkuð skapleg annað kvöld, að sögn Birgis.

„Aðfararnótt mánudags og á mánudagsmorgun verður bara fínt veður.“

Ekkert ferðaveður á mánudagskvöld

Veðurblíðan mun þó endast stutt þar sem hvessa á allhressilega úr suðaustri upp úr hádegi á mánudag og útlit er fyrir ofsaveður með talsverðri úrkomu á sunnanverðu á mánudagskvöld.

„Þessi úrkoma verður ýmist í formi rigningar, slyddu eða snjókomu,“ segir Birgir.

Spurður segist Birgir geta fullyrt appelsínugul viðvörun verði gefin út fyrir allt landið á mánudag enda verði veðrið verst á sunnanverðu landinu en það gangi svo yfir norðanvert landið aðfaranótt þriðjudags.

„Það er ekki hægt að útiloka rauða viðvörun en ég held það sé hægt að segja með góðri samvisku að hún verði að minnsta kosti appelsínugul.“

Þannig það verður ekkert ferðaveður á mánudag?

„Nei, óháð því hvaða litur verður sett á þetta þá held ég að það verði bara nákvæmlega ekkert ferðaveður á mánudagskvöldið.“

Þá segir hann að gera megi ráð fyrir slæmri færð á vegum á þeim svæðum þar sem úrkoman verður mest, inntur eftir því.

„Ef það verður mjög blautt safnast enginn snjór upp en hláka og vatn gæti orðið vandamál.“

Er einhver hætta á að fólk verði fyrir vatnstjóni?

„Ég held það væri allavega mjög ráðlegt að huga að niðurföllum fyrir þetta. Maður sá það fyrr í vikunni að jafnvel þó hitinn færi ekki nema rétt yfir frostmark og þetta verði slyddukennt þá er það alveg nóg til að búa til stóra polla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert