Starfsmenn Vestmannaeyjabæjar eru byrjaðir að ryðja vegi bæjarins en nokkur fjöldi bifreiða situr fastur í snjósköflum. Götur eru enn ófærar og biðlar lögregla til fólks að vera ekki á ferðinni svo hægt sé að hreinsa þær án truflana.
„[Þ]að tefur ferlið töluvert að bifreiðar séu fastar og fyrir snjóruðningstækjum“, segir í færslu embættisins á Facebook.
Í gærkvöldi sendi lögreglan í Vestmannaeyjum frá sér tilkynningu þar sem fólk var vinsamlegast beðið um að halda sig heima þar sem ekkert skyggni væri úti. Björgunarsveitir voru ræstar út til að aðstoða ökumenn sem höfðu lent í vandræðum.
Skömmu síðar var send út önnur tilkynning á Facebook þar sem greint var frá því að þar sem færðin hefði versnað væru björgunarsveitamenn hættir að losa fastar bifreiðar. Voru íbúar enn og aftur beðnir um að halda sig heima og njóta samverunnar með fjölskyldunni.