„Talsvert vont veður“

Ljósmyndari á vegum mbl.is sá þennan bíl sem fór heldur …
Ljósmyndari á vegum mbl.is sá þennan bíl sem fór heldur illa úr veðrinu í gær. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Það var ansi hvasst hérna í alla nótt. Það er ekki mikill snjór, það var svo hvasst þannig að þetta fauk bara allt í burtu,“ segir Þórir Níels Kjartansson, íbúi á Vík í Mýrdal, í samtali við mbl.is, spurður út í óveðrið sem gekk þar yfir í nótt.

Appelsínugular veðurviðvaranir tóku gildi á Suður- og Suðausturlandi upp úr klukkan níu í gærkvöldi og eru enn í gildi. Veðrið náði hámarki í nótt á svæðinu og mældust vindhviður í 50 metrum á sekúndum á Reynisfjalli fyrir ofan Vík.

62 metrar á sekúndu undir Eyjafjöllum

Vindurinn var þó kraftmeiri undir Eyjafjöllum, mældust hviðurnar þar í 62 metrum á sekúndu við Hvamm og 58 metrum á sekúndu við Steina í nótt. 

Útsýnið var ekki mikið í gær.
Útsýnið var ekki mikið í gær. Ljósmynd/Aðsend

Bílar hafa verið fastir í snjósköflum víða á svæðinu og voru björgunarmenn að störfum í nótt við að aðstoða ökumenn.

Þá hefur eitthvað verið um tjón eins og má sjá á myndinni hér að ofan. 

Mikill skafrenningur var úti og áttu einhverjir íbúar í Reynishverfi erfitt með að sjá út um glugga þar sem snjórinn hafði hulið útsýnið.

„Ansi langur umhleypingakafli“

Spurður hvernig febrúarmánuður hafi verið hjá þeim segir Þórir veðrið hafa verið ansi umhleypingarsamt en ekki er langt síðan að Víkurbúar vöknuðu við að mikill sandur hafði þakið götur bæjarins og var Sundlaugin meðal annars lokuð í nokkra daga vegna þess.

„Þetta er búið að vera ansi langur umhleypingakafli og talsvert vont veður,“ segir Þórir.

Það er að mestu fært núna.
Það er að mestu fært núna. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert