Björgunarfélag Vestmannaeyja var kallað út á áttunda tímanum í kvöld vegna tveggja garðhúsa sem voru að fjúka úr görðum við Heiðaveg annars vegar og Hólagötu hins vegar. Á sama tíma var um ökklahátt lón á götum úti.
Hjálmar Baldursson, sem situr í svæðisstjórn Björgunarfélags Vestmannaeyja, segir aðgerðir hafi staðið stutt yfir.
„Þeir kláruðu þetta bara á mettíma, strákarnir sem voru þarna úti,“ segir Hjálmar.
Þá varð stífla í niðurföllunum til þess að um ökklahátt vatnsból myndaðist á götum úti. Spurður út í það segir Hjálmar að bæjaryfirvöld hafi séð um að leysa stíflurnar og allt sé komið í lag núna.
Spurður út í framhaldið segir hann veðrið að mestu gengið yfir í Vestmannaeyjum.
„Við erum bara á leiðinni heim. Það er sól og blíða í Eyjum.“