Veðuraðgerðarstjórn Keflavíkurflugvallar verður kölluð saman á fund rétt upp úr hádegi í dag til að fara yfir nýjustu veðurspá. Ört versnandi veðri er spáð síðdegis í dag og taka rauðar viðvaranir Veðurstofunnar gildi um klukkan sex.
Veðuraðgerðarstjórnin kemur saman í hvert einasta sinn sem að spáin er þess eðlis að það er útlit fyrir að það hafi áhrif á þjónustuna á Keflavíkurflugvelli en í samtali við mbl.is segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, flugfélögin sjálf taka ákvörðun.
„Fundurinn snýst í rauninni um það að það er farið yfir veðurspánna og hvaða áhrif þessi spá geti haft á starfsemina á Keflavíkurflugvelli, hvort að landgangar eru teknir úr notkun í ákveðnum vindhraða eða eitthvað slíkt,“ segir Guðjón.
Hann segir flugfélögin og þjónustuaðilar flugfélaganna síðan upplýsa Isavia um hvaða ákvörðun sé tekin í ljósi þeirrar veðurspár sem í gildi er.
„Keflavíkurflugvelli er aldrei lokað, hann er alltaf opinn, en það geta að sjálfsögðu skapast aðstæður þar sem að erfitt getur reynst að þjónusta vélar og fyrst að veðurspáin er með þessum hætti að þá erum við alltaf með þetta ferli.“
Guðjón bendir á að hægt sé að fylgjast með flugáætlunum á heimasíðu Keflavíkurflugvallar, þar sem flugfélögin uppfæra sjálf stöðu fluga.