Rafmagnsleysi veldur því að ekki er hægt að dæla köldu vatni í Helgafellslandi í Mosfellsbæ.
Um er að ræða háspennubilun við Varmadal að Skálafelli.
Þetta staðfestir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is. Þar að auki hefur tilkynning verið sett á vef Veitna þessa efnis.
Vonast er til þess að rafmagn verði komið á innan stundar og benda Veitur á að slökkva á rafmagnstækjum sem gætu valdið tjóni er rafmagn kemur á að nýju.
Víða hafa orðið rafmagnstruflanir en mbl.is hafa borist tilkynningar um flöktandi ljós í Vesturbæ, Mosfellsbæ og á Kirkjusandi meðal annars. Spurð út í þær truflanir segir Ólöf skýringuna einfaldlega veðrið.
„Það er bara álag á orkukerfinu eins og er, út af veðrinu. Það hafa verið að detta inn háspennubilanir og annað. Þetta er bara veðrið.“