Uppfært í rauða viðvörun á Suðvesturlandi

Kort/Veðurstofa Íslands

Viðvörunarstig vegna veðurs hefur verið hækkað úr appelsínugulu í rautt í Faxaflóa, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.

Rauð viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag um sjöleytið og er fólki ráðlagt að halda sig heima á meðan viðvörunin er í gildi.

Í samtali við mbl.is segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, að búast megi við að vindur verði 20-30 m/s á höfuðborgarsvæðinu og hvassast ofarlega í efri byggðum og á Kjalarnesi.

Talsverð úrkoma verður, líklegast snjókoma og slydda ofarlega sem veldur því að færð verður sennilega erfið í efri byggðum Kópavogs og í efra Breiðholti.

Vatnsagi á götum

Elín segist búast við því að rigning í neðri byggðum muni valda miklum vatnsaga á götum vegna snjóruðninga sem eru fyrir.

„Ef að fólk getur mögulega opnað fyrir niðurföllin í götunum hjá sér og í kjöllurum og annað slíkt að þá myndi það hjálpa til við að forða frá einhverskonar tjóni af völdum vatnsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert