„Við munum taka þátt í aðgerðum“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirlýsing og aðgerðir Rússa í kvöld eru alvarleg stigmögnun á ástandi sem var þegar mjög eldfimt.

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Herinn „haldi frið“

Vla­dimír Pútín for­seti Rúss­lands skrifaði í kvöld undir viður­kenn­ingu á sjálf­stæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í aust­ur­hluta Úkraínu, en aðskilnaðarsinn­arn­ir hafa verið studd­ir leynt og ljóst af rúss­nesk­um stjórn­völd­um frá því þau réðust þangað inn árið 2014.

Í kjölfar viðurkenningarinnar skipaði Pútín her landsins að „halda frið“ á svæðunum tveimur. Þar með mun her Rússlands opinberlega fara yfir landamæri ríkjanna tveggja norður af Azov-hafi.

Brot sem kallar á viðbrögð

Þórdís Kolbrún segir bæði viðurkenninguna og skipun Pútíns vera brot á alþjóðalögum, þar sem vegið sé að landamærum sem eru alþjóðlega viðurkennd, og það gert í skugga yfirvofandi hervalds.

„Þetta er aðgerð sem er auðvitað ekki líðandi og við munum taka þátt í aðgerðum til þess að bregðast við, vegna þess að við tökum afstöðu með alþjóðalögum og virðingu fyrir landamærum og friðhelgi lögsögu landa,“ segir hún.

Spurð hvers konar refsiaðgerðir komi til greina segir Þórdís ýmsar útfærslur hafa verið ræddar og að þær sem verði fyrir valinu helgist af því hvernig málin þróast.

„En þessi aðgerð er brot sem mun örugglega kalla á viðbrögð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert