Lögreglan í samstarfi við Vegagerðina og björgunarsveitir vinna nú að því að koma ökumönnum í bílana sem hafa setið fastir í snjósköflum í Þrengslum og Svínahrauni frá því í gær. Nauðsynlegt er að færa bílana svo hægt sé að ryðja veginn almennilega og opna fyrir umferð.
Að sögn Elínar Jóhannsdóttur, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, er nú verið að hringja í þá einstaklinga sem eiga ökutækin sem eru ríflega 40 talsins.
Björgunarsveitir munu sjá um að ferja ökumenn í bílana en áður en hægt verður að komast á vettvang og færa bifreiðarnar þarf að ryðja veginn að hluta.
Þegar því er öllu lokið verður síðan ráðist í enn frekari snjómokstur svo hægt verði að opna veginn fyrir almenna umferð. Það verður þó líklega ekki fyrr en seinnipartinn í dag.
„Þetta er soldið púsl af koma þeim af svæðinu. Þetta getur alveg tekið einhvern tíma. Nú erum við að hringja og eigendurnir eiga eftir að komast upp eftir, svo eiga þeir eftir að komast að bílunum.“
Mjólkurbíll og olíubíll eru meðal þeirra ökutækja sem voru skilin eftir á svæðinu í gær. Að sögn Elínar er búið að gera ráðstafanir svo hægt sé að ná í þá.