Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segir ástandið á varaaflinu í Vestmannaeyjum óboðlegt en rafmagnsleysið hefur gífurlega miklar afleiðingar fyrir bæjarfélagið.
Bæjarstjórn og bæjarráð hafi varað yfirvöld við þessari stöðu í mörg ár án þess að það hafi komið til úrbóta. Hún segir að samtal sé í gangi við nýjan ráðherra orkumála, en hann hefur lagt minnisblað fyrir ríkistjórn varðandi stöðu varaafls í Eyjum og að það sé löngu kominn tími til að framkvæma.
Rafmagnslaust var fram eftir degi í hluta af grunn- og leikskólum í Vestmannaeyjum í dag þar var líka orðið kalt í byggingunum og ekki var hægt að elda mat fyrir börnin.
Einnig hafði rafmagnsleysið áhrif á verslanir, vinnustaði og samfélagið allt.
„Það hafa ekki allir fengið það rafmagn sem þörf er á og var rafmagn skammtað frameftir degi. Það gefur bara augaleið þegar verið er að skammta rafmagn þá til er ekki nóg varaaafl. Þetta er bara ástand sem við getum ekki búið við, að hafa ekki nægt varaafl til að sinna þeirri forgangsorkuþörf sem er hér,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í samtali við mbl.is.
Rafmagnið fór af rétt fyrir klukkan níu í morgun vegna bilunar á línukerfi Landsnets uppi á landi og hefur Vestmannaeyjabær gengið á varaafli síðan þá. Það dugir þó ekki fyrir allan bæinn en skammta hefur þurft rafmagn til fyrirtæki og heimili. Hefur þetta m.a. áhrif á hita í húsum þar sem að fjarvarmaveitan sem framleiðir varmaorku er keyrð áfram á rafmagni.
„Þetta er búið að vera flókinn dagur fyrir okkur. Varaaflið sem er aðeins 4-5 MW dugar ekki, það er alltof lítið. Landsnet ber ábyrgð á því að tryggja varaaflið. Forgangsorkuþörfin hér er 11 MW í dag. Við erum í mörg ár búin að tala fyrir úrbótum og varað við að þessar aðstæður geta komið upp.“
Að sögn Írisar veit hún ekki til þess að það hafi verið nein vandræði á sjúkrastofnunum vegna rafmagnsleysisins en sjúkrahúsið, lögreglan og slökkvilið eru með sér varaafl enda brýn nauðsyn fyrir því.
Aðspurð kveðst Íris ekki vita til þess að miklar skemmdir hafi orðið í óveðrinu í nótt en björgunarsveitin sinnti þó nokkrum útköllum, m.a. vegna foktjóns.
Hún segir ástandið á götum bæjarins hafa skánað til muna frá því um helgina þegar fjöldinn allur af bílum sátu fastir í snjósköflum. Talsverð rigning var í gær sem skolaði mesta snjónum burt.