Gróðurhúsið gjörónýtt

Aftakaveður eyðilagði 2000 fm garðyrkjuhús Jarðaberjalands í Biskupstungum.
Aftakaveður eyðilagði 2000 fm garðyrkjuhús Jarðaberjalands í Biskupstungum. Ljósmynd/Hólmfríður Geirsdóttir


Aftakaveður var í Biskupstungunum í gærkvöldi og 2000 fm gróðurhús Garðyrkjustöðvarinnar Jarðarberjalands eyðilagðist. Eigendurnir Hólmfríður Geirsdóttir og Steinar Ástráður Jensen sjá á eftir allri uppskerunni og hátt í 19.000 plöntum.  

„Það hefur sjálfsagt farið yfir 40 metrana í hnútum þegar verst lét í veðrinu í gær. Líklega hefur húsið bara hreinlega farið hér þegar uppúr 9 í gærkvöldi þegar verstu hviðurnar dundu á,“ sagði Hólmfríður Geirsdóttir í samtali við Morgunblaðið. Stálgrind gróðurhússins er bæði brotin og beygð á mörgum stöðum og plastið meira og minna fokið af og allur búnaður til ræktunarinnar er ýmist brotinn eða fór í rokinu. 

„Það er allt saman farið og uppskera ársins er fyrir bí," segir Hólmfríður. Jarðaberjaland hefur verið með heilsársræktun og framleiða hátt í 30 tonn á ári, þar af 4-500 kg vikulega á veturna og allt að 1500 kg vikulega á sumrin og standa þau vaktina í ræktuninni alla daga nema sunnudaga.

 „Við eigum von á mönnum hér að meta tjónið og það er sjálfsagt ekkert annað í stöðunni en að rífa rústirnar og endurbyggja allt upp á nýtt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert