Holur gætu leynst undir vatnselgnum

Vatnselgir hafa myndast víða á höfuðborgarsvæðinu.
Vatnselgir hafa myndast víða á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vatn hefur safnast saman í köntum og hjólförum á götum höfuðborgarsvæðisins og þurfa ökumenn að hafa varann á þegar keyrt er í gegnum polla þar sem stórar holur gætu leynst undir. 

Þetta segir Guðbrandur Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Mikið álag hefur verið á vegakerfinu undanfarna daga og eru líkur á að það hafi orðið fyrir einhverju tjóni vegna veðurskilyrða og snjómoksturs. 

Að minnsta kosti ein tilkynning hefur borist lögreglu vegna bíls sem varð fyrir tjóni eftir að hafa keyrt í stóra holu í Hafnarfirði.

Að öðru leyti hefur umferðin gengið nokkuð vel í morgun en svo virðist sem margir hafi tekið ákvörðun um að halda kyrru fyrir heima á meðan óveðrið gengur yfir. Þá hafa stofnbrautir verið auðar að mestu, fyrir utan vatnselgi sem hafa myndast hér og þar.

Veghaldarar hafa unnið hörðum höndum frá því í gær að hreinsa klaka og snjó frá niðurföllum og hreinsa stærstu vatnselgina sem hafa myndast víða á vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert