Tvö snjóflóð féllu eftir miðnætti í gær ofan við svæðið sem var rýmt á Patreksfirði. Þá féll einnig snjóflóð yfir veg á Raknadalshlíð innar í firðinum. Ekki er vitað til þess að fleiri snjóflóð hafi fallið, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.
Búið er að aflýsa hættu- og óvissustigi vegna snjóflóðahættu á sunnan- og vestanverðum Vestfjörðum. Veðrið tók að ganga niður í nótt og þá hefur lítil úrkoma mælst á norðanverðum Vestfjörðum.
Hluti af rýmingarreit 4 á Patreksfirði var rýmdur í gær vegna snjóflóðahættu en austan óveður gekk yfir sunnanverða Vestfirði í gærkvöldi og fram á nótt.
Í tillkynningu Veðurstofunnar segir að nýr varnargarður verji nú innri hluta rýmingarreitsins en framkvæmdir eru hafnar á garði sem verja á ytri hlutann.