Svipað og að vakna í öskugosi

Sandurinn þekur háa snjóskafla.
Sandurinn þekur háa snjóskafla. mbl.is/Jónas Erlendsson

Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri Mýrdalshrepps segir upplifunina í morgun svipa til þess að vakna í miðju öskugosi þar sem sand hafði lagt yfir meirihluta þorpsins í Vík eftir aftakaveður í nótt. Hún segir það taka nokkra daga að koma í ljós hvort mikið tjón hafi orðið.

„Við áttum svo sem von á þessu. Það er ekki langt síðan að það var suðvestan átt í svona miklu hvassviðri en þá mokast sandurinn upp úr fjörunni.

Við höfum verið að vinna í því að lengja fjöruna til að draga úr landbroti, sem hefur gengið ágætlega að hluta til, illa annars staðar. En sá böggull fylgir skammrifi að sandurinn mokast þeim mun meira upp úr fjörunni úr þessari átt og þekur þorpið í Vík.“

Mesti sandurinn gekk á land vestast í þorpinu.
Mesti sandurinn gekk á land vestast í þorpinu. mbl.is/Jónas Erlendsson

Eins og að vera í sandblæstri

Að sögn Þorbjargar var ástandið hvað verst vestast í þorpinu þar sem mesti sandurinn gekk á land.

Hún segir ásýnd þorpsins þó geta verið ögn blekkjandi þar sem sandurinn hefur þakið háa snjóskafla – virka sandhaugarnir því stærri fyrir vikið. Þá hafi einnig verið töluvert magn af sandi fyrir frá síðasta sandfoki í byrjun mánaðar.

„Þó þetta sé slæmt, sem ég vil alls ekki draga úr, þá lítur þetta örlítið verr út.“

Hún kveðst ekki hafa heyrt af neinum stórskemmdum en það gæti þó tekið nokkra daga að koma í ljós. 

„En hins vegar getur orðið tjón á rúðum. Þetta er bara eins og að vera í sandblæstri,“ segir Þorbjörg og bætir við að bílar í þorpinu hafi verið þaktir sandi í morgun.

Í gær hafi aftur á móti vindurinn verið það kraftmikill að gluggar í tíu bílum brotnuðu þegar steinar og grjót fuku.

Rafmagni dreift á íbúa

Rafmagnslaust hefur verið í Mýrdal í morgun vegna bilunar hjá Landsneti en Vík hefur verið keyrð áfram á varaafli. 

„Þá er bara reynt að skammta þannig að allir fái eitthvað, þannig maður getur haft rafmagn til að elda og lýsa.“ 

Að sögn Þorbjargar hefur veðrið gengið niður hægt og rólega það sem af er liðið degi og vonar hún að íbúar fái frið frá öðru eins veðri í einhvern tíma núna.

„Við héldum að við fengjum ekki annað svona eftir síðasta sandfok sem var fyrir nokkrum dögum. En það er allavega ekkert sem maður sér í nánustu framtíð í kortunum. En hver veit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert