Þak fauk í heilu lagi af íbúðarhúsi

Húsið í morgun án þaksins.
Húsið í morgun án þaksins. Ljósmynd/Hinrik Ingólfsson

Svo virðist sem þak hafi fokið af gömlu íbúðarhúsi við Kolbeinsgötu á Vopnafirði í heilu lagi í nótt.

Hinrik Ingólfsson, formaður björgunarsveitarinnar Vopna, segir að útkall hafi borist um hálftvöleytið í nótt.

„Það fóru stórir bútar yfir hús í nágrenninu án þess að snerta neitt,“ segir Hinrik við mbl.is en nefnir að bútar hafi lent á húsum fyrir ofan. Engin slys urðu á fólki.

Mesta magnið fauk um 120 metra frá húsinu en einnig fannst „einn fleki 180 metra uppi í bæ“.

Ljósmynd/Hinrik Ingólfsson

Á neðri hæð íbúðarhússins við Kolbeinsgötu býr fólk en það virðist ekki hafa orðið vart við lætin og hafði ekki kallað eftir neinni aðstoð. Fólkinu var komið í öruggt skjól.

„Ég hef heyrt af svona áður en aldrei lent í því sjálfur,“ segir Hinrik um þakið sem fauk og telur að neglingin á burðarvirkinu hafi ekki klikkað. Frekar sé fúa um að kenna.

Ljósmynd/Hinrik Ingólfsson

Næsthæsta vindhviðan

Samkvæmt tölum úr veðurmæli á Skjaldþingsstöðum var meðalvindhraði milli klukkan eitt og tvö í nótt 25-28 m/s og yfir 40 m/s í hviðum, að því er Austurfréttir greina frá.

Í twitterfærslu Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, kemur fram að vindhviða á Vatnsskarði eystra mældist 75,6 m/s í nótt og hefur aðeins einu sinni mælst hærri hviða á stöð Vegagerðarinnar, eða við Lómagnúp 1. apríl 2005, 76,7 m/s. Vindhviðumetið er aftur á móti frá Ásgarðsfjalli 7. febrúar, 76,6 m/s.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert