Mikið álag var á flutningskerfi Landnets í gær og í nótt og talsverðar truflanir á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum sem olli rafmagnsleysi á ákveðnum svæðum, en sum voru rekin á varaafli. Í gærkvöldi var rafmagnslaust um tíma á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem enn eru keyrðir á varaafli. Undir morgunn var rafmagnslaust á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum og var varaafl ræst og verið að vinna í að koma rafmagni á aftur.
Tjón varð í Laxárvatnslínu þar sem stæður skemmdust og það brotnaði þverslá í Selfosslínu 2, en ekki er enn ljóst hvort skemmdir eru meiri. Einnig fóru bæði Sultartangalína 3 og Búrfellslína 3 út í gærkvöldi, en báðar liggja til höfuðborgarinnar, og sú fyrrnefnda er enn úti og þykir líklegt að bilunin sé á línunni þar sem hún liggur yfir hálendi en vegna slæms veðurs er ekki ljóst hvenær viðgerð getur hafist.
Ekki varð rafmagnsleysi í bænum af þessum sökum, en spennuhögg kom á kerfið sem olli flökti á ljósum og skerða þurfti flutning til stórnotenda af þeim sökum. Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið í nótt til að skoða línuna en þurfti frá að hverfa vegna veðurs, en önnur tilraun verður gerð í dag.
Meira en 20 línur hafa farið út og eru viðgerðir eru að hefjast á sjö línum sem enn eru bilaðar. Ekki er vitað hversu langan tíma það mun taka en ljóst er að tjónið er upp á tugi milljóna.