„Við byrjum aftur á byrjunarreit á hverjum degi núna,“ segir Halldór Ólafsson, rekstrarstjóri vetrarþjónustu gatna hjá Reykjavíkurborg, um snjóruðning í borginni.
Allir bílar fóru út klukkan fjögur í nótt til að moka snjóinn í burtu sem féll í nótt og vélar hafa verið sendar í húsagötur. „Við höldum áfram frá því í gær. Við erum á fjórðu umferðinni núna, að minnsta kosti í efri hverfunum,“ segir hann um snjóruðning í húsagötum.
Alls eru níu snjóruðningsbílar að störfum og yfir 20 vélar, en þar er um að ræða dráttarvélar, gröfur og fleiri tæki.
Er ekki búið að vera brjálað að gera?
„Við kvörtum ekki um atvinnuleysi en þetta er búið að vera mjög strembið,“ svarar Halldór og bendir á að einungis er ruddur snjór í þeim húsagötum sem eru í eigu borgarinnar.