Varðskipið Freyja er komið til Ísafjarðar vegna þess óveðurs sem gengur yfir Vestfirði í dag og í kvöld.
„Skipið kom í morgun og er í viðbragðsstöðu og til taks ef á þarf að halda“, segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum og fellur úr gildi á miðnætti.
„Það er bara vitlaust veður eins og gert var ráð fyrir,“ segir Guðmundur Magnús Kristjánsson hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar í samtali við mbl.is en bætir við að ekkert tjón hafi orðið í höfnum bæjarins og að allt sé eðlilegt.
Spurður hvort búist sé við rafmagnsleysi segir Guðmundur það stóran óvissuþátt í lífi Vestfirðinga hvort rafmagnið hangi inni eða ekki en búið sé að setja allt varaafl í gang.
Ari Kristinn Jóhannsson hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar segir að enginn auka viðbúnaður sé hjá þeim og á hann von á því að kvöldið verði frekar rólegt á flestum sviðum.