Hæg suðlæg eða breytileg átt verður á landinu í dag og dálítil snjókoma á sunnanverðu landinu framan af morgni, en annars verður skýjað með köflum og úrkomulítið.
Gengur í norðaustan 18-25 metra á sekúndu með snjókomu eða skafrenningi norðvestantil undir hádegi, en síðar einnig vaxandi norðaustanátt norðaustantil með snjókomu og verða 13-20 m/s þar undir kvöld. Hægara og birtir til sunnan heiða.
Á morgun verða norðan 13-20 m/s, hvassast á Suðausturlandi, en lægir um kvöldið. Dálítil él verða á norðanverðu landinu, en léttskýjað syðra. Frost verður á bilinu 0 til 10 stig, minnst við sjávarsíðuna.
Í athugasemd veðurfræðings Veðurstofunnar er bent á hríðarveður á norðanverðu á landinu í dag, einkum norðvestantil. Hvassir norðanvindstrengir verða sunnan Vatnajökuls á morgun.