Útlit er fyrir óveður á morgun og taka gular viðvaranir gildi á Suðvestur- og Vesturlandi upp úr hádegi á morgun. Í dag er hvöss norðanátt er nokkuð víða á landinu og skafrenningur. Þá snjóar norðan- og austanlands en í dag mun lægja smám saman og létta til sunnan- og vestanlands með vetrarsól að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Á Facebook-síðu sinni varar slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fólk við klakabunkum víða og hvetur fólk til þess að fara varlega og nota mannbrodda sé fólk óöruggt.
Veður fer kólnandi en búast má við frosti kringum 10 stigin inn til landsins í kvöld.
„Þegar þetta er skrifað er enn ein vaxandi lægðin við Nýfundnaland og stefnir hún til norðausturs í dag og nálgast okkur. Þessi lægð veldur óveðri á landinu á morgun. Þá má búast við suðaustan stormi eða roki með snjókomu og síðar talsverðri slyddu eða rigningu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
„Undir kvöld á morgun snýst í allhvassa sunnanátt á Suður- og Vesturlandi með skúrum eða slydduéljum. Snýst einnig í hægari sunnanátt á norðan- og austanverðu landinu seint annað kvöld.“