Lægð sendir óveður yfir landið í dag

Veðurviðvaranir dagsins.
Veðurviðvaranir dagsins. Kort/Veðurstofa Íslands

Djúp lægð kom inn á Grænlandshaf snemma í morgun og mun hún senda óveður yfir landið í dag. Öllu flugi til og frá Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum hefur verið aflýst út daginn. 

Gular og appelsínugular veðurviðvaranir taka gildi á öllu landinu í dag, appelsínugular á Suðvestur- og Vesturlandi, sem og á miðhálendinu, en gular annars staðar á landinu. 

„Þegar suðaustan óveðrið hefur lokið sér af snýst í allhvassa sunnanátt með skúrum eða slydduéljum. Þessi snúningur gerist á mismunandi tímum á mismunandi stöðum á landinu, tökum dæmi um tímasetningar: á höfuðborgarsvæðinu milli kl. 16 og 17, á Egilsstöðum milli kl. 20 og 21,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Foreldrar meti sjálfir hvort fylgja þurfi börnum úr skóla

Þar sem appelsínugula veðurviðvörunin er í gildi frá klukkan 11 til klukkan 17 á höfuðborgarsvæðinu sendi Áslaug Ellen Yngvadóttir, sérfræðingur í almannavörnum hjá 
Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, eftirfarandi skilaboð á fjölmiðla:

Forsjáraðilar þurfa að meta sjálfir hvort fylgja þurfi börnum úr skóla eða frístundastarfi. Við appelsínu gula veðurviðvörun er meiri þörf á að fylgja börnum úr skólanum. Rétt er að hafa í huga að oft getur verið hvasst í efri byggðum. Ef hálka eða ofankoma fylgir veðrinu aukast líkur á að þörf sé fyrir fylgd.

Mikilvægt er að forsjáraðilar hafi í huga að röskun getur einnig orðið á frístunda­starfi og skipulögðum æfingum í lok skóladags og séu tilbúnir að sækja börn í skóla og frístundastarf ef þess gerist þörf.“

Vél Icelandair í vondu veðri á Akureyrarflugvelli. Þaðan verður ekki …
Vél Icelandair í vondu veðri á Akureyrarflugvelli. Þaðan verður ekki flogið í dag. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Veðrið róast á sunnudag

Sem stendur er vaxandi suðaustanátt, stormur eða rok þegar kemur fram á daginn með snjókomu í fyrstu, síðar talsverðri rigningu eða slyddu á láglendi. Þá á að hlýna í veðri og verður hiti 1 til 6 stig síðdegis.

„Hvessir einnig um landið norðaustanvert uppúr hádegi og þar má búast við skafrenningi og dálítilli snjókomu, hlýnar upp að frostmarki á þeim slóðum,“ segir í hugleiðingunum. 

„Á morgun (laugardag) má gera ráð fyrir sunnan og suðvestan strekkingi með éljum nokkuð víða, en bjartviðri norðaustantil á landinu. Það kólnar og hiti kringum frostmark á morgun.

Á sunnudag róast veðrið síðan meira, þá er útlit fyrir suðlæga golu eða kalda með éljum, gæti orðið fallegt vetrarveður milli éljanna. Á Norður- og Austurlandi er ekki gert ráð fyrir úrkomu. Frystir um mestallt land.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert