Öll kerfi Veitna úti vegna eldingar

Eldingu sló niður í Soglínu tvö.
Eldingu sló niður í Soglínu tvö. AFP

Sogslína tvö, sem liggur úr Soginu í Geitháls, er úti sem stendur. Að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúa Landsnets, er talið að eldingu hafi slegið niður á línuna og orsakað högg á allt kerfi Veitna klukkan 15.46.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu gætu einnig hafa orðið varir við flökt á ljósum og rafmagnstækjum. 

Bilanir eru á öllum kerfum Veitna.
Bilanir eru á öllum kerfum Veitna. Skjáskot

„Það eru skemmdir á línunni og mögulega á mastrinu. Fólk frá okkur er komið á staðinn og er að meta skemmdir og hvað verður gert í kjölfarið í sambandi við viðgerðir,“ segir Steinunn. 

Spennufallið í kerfum Landsnets olli truflunum í kerfum Veitna og við það stöðvuðust meir eða minna allar dælur, heitt vatn, kalt vatn og fráveita frá Grundafirði austur á Hvolsvöll, með öllu höfuðborgarsvæðinu töldu. 

Rafmagnstruflanir eru víða á Vesturlandi.
Rafmagnstruflanir eru víða á Vesturlandi. Mynd/skjáskot

„Við erum á fullu að ræsa öll kerfin aftur og vonumst til þess að allir verði komnir með kalt og heitt vatn og fráveitu innan klukkutíma. Við ráðum þó ekki við það þar sem ekki er komið rafmagn eins og víða á Vesturlandi,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert