Fimmtíu manns fengu skjól í Hveragerði

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Um fimmtíu manns voru fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Hveragerði eftir að útkall barst Slysavarnarfélaginu Landsbjörg undir miðnætti um bíla sem sátu fastir í Þrengslum.

Þegar björgunarsveitir komu í Þrengslin var færð farin að spillast verulega. Þar fundust nokkrir bílar fastir og í framhaldinu fóru sveitirnar á Hellisheiði þar sem enn fleiri bílar sátu fastir. Báðum vegunum var í framhaldinu lokað.

Snjóbíll frá björgunarsveit ruddi veginn fyrir björgunarsveitarbíla sem fluttu fólkið í Hveragerði þar sem starfsfólk Rauða krossins tók á móti því, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Bílarnir voru skildir eftir og í morgun unnu lögregla og verktakar að því að losa þá, en bæði Hellisheiði og Þrengslin hafa verið lokuð í morgun.

Frá Hellisheiði en vegurinn um heiðina hefur verið lokaður frá …
Frá Hellisheiði en vegurinn um heiðina hefur verið lokaður frá því í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hátt í 20 útköll

Að sögn Davíðs bárust hátt í 20 útköll vegna ófærðar í gærkvöldi, meðal annars vegna á annars tugs bíla sem sat fastur á Lyngdalsheiði og Þingvallavegi. Þar höfðu með skjótum hætti myndast erfiðar aðstæður vegna mikils skafrennings með tveggja til fimm metra skyggni. Á meðal þeirra sem veittu ökumönnum aðstoð voru heimamenn á Laugarvatni.

Davíð Már hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspám áður en haldið er út í veðrið og virða veðurviðvaranir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka