Furðar sig á langri og ítrekaðri lokun Hellisheiðar

Þorgerður segir tilfinninguna vera að ekki sé verið að gera …
Þorgerður segir tilfinninguna vera að ekki sé verið að gera nóg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, furðar sig á langri og ítrekaðri lokun Hellisheiðar yfir veturinn og spurði Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag, hvort Vegagerðin hefði fengið skilaboð um að bæta í þjónustu. Þá spurði hún einnig hvort ráðherra hefði hugsað sér að endurmeta áætlanir varðandi göng undir Hellisheiðina.

Vitnaði Þorgerður í orð bæjarstjóra Hveragerðis sem sagðist hafa allan skilning á því að vegir gætu lokast en tilfinningin væri sú að opnað væri seinna og að lokanir væru lengri. Sagði hún tilfinninguna vera að ekki væri verið að gera nóg.

Benti Þorgerður á að miklir fólksflutningar hefðu átt sér stað austur fyrir fjall síðastliðin tíu ár og stór fyrirtæki væru að hasla sér völl. Það hefði meiri umferð í för með sér, fyrir utan ferðaþjónustuna sem hefði bætt í.

„Það er allt annað veður“

Sigurður Ingi sagði í svari sínu að við gleymdum því oft að við byggjum á Íslandi og gerðum einfaldlega ráð fyrir að komast leiðar okkar. Við yrðum að sætta okkur við að veðrið hér á landi gæti verið skítt.

Sagðist hann hafa leitað eftir upplýsingum frá Vegagerðinni, en snjómokstur hafi verið boðinn út að nýju og nýr verktaki tekið við, en engu hafi verið breytt frá því sem áður var. „Það eina sem hefur raunverulega breyst, frá því kannski í fyrra, er að það er allt annað veður.“

Óveður hafi staðið yfir í langan tíma í einu og því hafi verið illgerlegt að moka. Einnig hafi verið kaldara en áður og snjór legið yfir með tilheyrandi skafrenningi. „Þannig að svarið er, því miður, veðrið er óvenjuslæmt á Íslandi um þessar mundir. Ég held að menn séu allir að reyna að gera sitt besta við að halda opnu.“

Aukinn þrýstingur lögreglu á að loka vegum

Þorgerður kom aftur í ræðustól og sagði að þegar veðuröfgarnar væru eins og Sigurður lýsti, þá hlyti fólk að spyrja hvað stjórnvöld ætluðu að gera í því. Hún spurði hvort Vegagerðin hefði fengið skilaboð um að bæta í þjónustuna og hvort það væri ekki ástæða til að breyta ferlum fyrst óbreytt verklag dygði ekki til.

Varðandi göng þá sagðist Sigurður ekki hafa nýlega ítrekað það að skoða hvort göng væru vænlegur kostur, enda minnti hann að það hefði verið slegið út af borðinu út vegna mikils jarðhita og vatns á svæðinu.

Sigurður Ingi segir Íslendinga verða að sætta sig við að …
Sigurður Ingi segir Íslendinga verða að sætta sig við að veðrið sé allskonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sagðist hann sjálfur hafa kannað möguleika á því að byggja einhvers konar vegskála, en ekki enn fengið svör við því. Þeir hefðu hins vegar ekki dugað til í veðrinu eins og það hefur verið í vetur.

Þá sagði hann það kannski hafa breyst að lögregla og almannavarnir hafi verið með aukinn þrýsting á að loka vegum.

„Ég held því miður að við verðum að sætta okkur við að veðrið er allskonar á Íslandi og núna í febrúar var það sérstaklega skítt, en það er vonandi búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert